Svavar Jónatansson

Að sitja í vörubíl eða rútu og fara 10 - 15 ferðir í kringum landið og taka myndir eingöngu út um hliðarrúðuna á ferð vakti forvitni okkar og hlýtur að kalla á nokkrar spurningar. Við hjá ljósmyndari.is ræddum við Svavar Jónatansson, 29 ára, sem ákvað einn daginn að framkvæma gamlan draum.

Hvenær hófst ljósmyndaáhuginn hjá þér ?
Áhugann má rekja til um 15 ára aldurs, þegar ég rakst á fallega OM-10 myndavél frænda míns. Ég fékk hana lánaða og myndaði fólk í kring um mig og það sem mér þótti áhugavert. Síðan þá myndaði ég með vélum úr OM seríunni, með reglulegum kaupum á notuðum vélum, og var OM-1 í miklu uppáhaldi.

Ertu lærður sem ljósmyndari ?
Ég lærði ekki ljósmyndun. Ágætur bekkjabróðir minn í framhaldsskóla kenndi mér að framkalla, og eftir það sá ég um það sjálfur. Í kjölfarið að kynnast umhverfisljósmyndaranum James Balog árið 2005, hlaut ég gríðarlega gagnlega þjálfun við það að vinna með honum þegar hann kom til landsins að mynda hop jökla. Að upplifa slíkan áhuga og staðfestu í nálgun viðfangsefnis, ásamt þeim fórnum, vandamálum og loks afrakstri, kenndi mér mikið um þá þætti ljósmyndunar.

Hvað kom til að þú fórst þessa leið í þinni listsköpun ?
Þessi nálgun, og vettvangur, ljósmyndun úr bílum, er aðeins einn af mörgum. Heimildarljósmyndun og götuljósmyndun á ferðalögum erlendis voru og eru mér enn mikilvægir þættir. Í raun snýst þetta aðeins um áhuga og hugmyndir hjá mér, og þeim getur skotið niður í hinum fjölbreyttustu formum. En þar sem ég fór þessa leið í að fanga ásjónu landsins, er viðeigandi að nefna þau helstu vandamál sem mættu mér, og hvernig þessi nálgun er að mínu mati heppileg. Í fyrsta lagi er hristingur af völdum ójöfnum vegum, og er á köflum svo mikil að mikið átak þarf til að halda myndavélinni stöðugri. Ástæðan fyrir því að ég stillti ekki vélina til að taka mynd með vissu millibili, var sú að eina leiðin til að berjast við hristinginn, er að bíða þar til vélin dempast aftur í rétta sjónlínu. Annars væru stór hluti myndanna í svo rangri sjónlínu að ekki væri unnt að nota þær. Sömuleiðis var oft erfitt að útvega far, þar sem sumir bílstjórar villdu ekki farþega, eða voru þegar komnir með, og því var gott að hafa fleiri valkosti en að sötra kaffi í sólarhring á Reyðarfirði. - Verkefnið stendur nú í rétt rúmum 3 árum. Hófst handa haustið 2007.

Hvernig var að fá leyfi hjá þessum bílstjórum að fá að sitja í ?
Fyrirtækin sem veittu mér aðgang að farartækjum sínum, Austfjarðarleið, Flytjandi, KASK, Landflutningar, Netbus, SBA Norðurleið og Sterna, tóku vel í hugmyndina og var þetta því þeirra stuðningur við verkið. Svo var það undir hverjum bílstjóra fyrir sig komið hvort hann hefði áhuga á að leyfa mér að þvælast með. Ástæða þess hversu margir aðilar komu að verkinu, er sú að ef bílstjóri villdi ekki hafa mig með, varð ég að geta leitað annað. Sömuleiðis voru rúturnar að keyra mismunandi leiðir, á mismunandi tímum dags osfrv. Í raun var þetta eitt viðamikið púsluspil ýmissa þátta.

Hvað tók þetta verkefni langan tíma og hvað tókstu margar myndir ?
Ég veit að ég á um 200 000 ljósmyndir úr þessum keyrslum. Oftast voru ferðirnar púsluspil þar sem ég fór mikið fram og tilbaka. Keyrði frá Reykjavík til Akureyrar, og tilbaka daginn eftir. Eða til Hafnar og tilbaka. Sömuleiðis dvaldi ég oft fyrir austan, og var þá að keyra frá Egilsstöðum til Hafnar eða Akureyrar, og tilbaka með næsta bíl. Svo í heildina eru þetta kannski um 10-15 hringir ef ekki meira, þarf að taka þetta saman einn daginn. Í hvert sinn sem ég ek sem farþegi um landið, hef ég myndað, hvort sem eru stakar myndir af þeim stöðum sem ég endurtek reglulega, eða hundruðir mynda til að búa til video. Þetta verður viss söfnunarárátta ef verstu sort. -

Hvaða búnað notaðir þú í þetta ?
Fyrst notaði ég Nikon D70. Spegilinn gaf sig á Mývatni í blíðskaparveðri. Fékk ég þá lánaða Canon 30D hjá pabba mínum í nokkrar ferðir, en fékk mér svo notaða Nikon D200. Ég hafði mestmegnis notað 28 mm linsu, og fékk mér þá notaða gamla Manual Focus linsu, teipaði niður focusinn, og hef notað hana í mestan hluta verksins.

Var ekki erfitt að fá góða og skarpa mynd tekna út um bílglugga á ferð ?
Já og nei. Undir vissum kringumstæðum er skörp og skýr mynd ekki möguleg, né er hún nauðsýnleg. Birtan á ýmsum tímum er slík að mikilvægara er að gera henni skil og gefa þá tilfinningu sem henni fylgir, fremur en skýr og skörp mynd. Allt í þessum heimi má túlka í ljósmyndum, á svo fjölbreyttan hátt. Þetta var mín leið.

Hvaða stillingar á vélinni notarðu aðallega ?
Aðstæðurnar eru svo mismunandi, og því var ég sjaldan með eina fasta nálgun eða stillingu, að undanskildu því að taka alltaf á manual, og Þegar líða fór á verkið urðu þó stillingarnar hnitmiðaðri. Ljósopið bara nægilega stórt til að geta fryst landslagið, en haft ljósnæmið fremur lágt ef kostur var. Þetta er bara dæmi um þróun, mistök, tilraunir og lærdóm. Hraðinn var frá 1/2 sekúndu upp í 1/8000, það var svo gífurlega mismunandi eftir birtu, enda keyrði ég á öllum tímum sólarhrings og á öllum árstíðum. Eitt skipti keyrði ég Eyjafjörðinn snemma morgun í janúar, og dauf blá skíma var yfir svörtum fjöllunum, og það myndaði ég á mjög hægum hraða, en maður fær tilfinninguna fyrir þessari birtu í myndunum.

Hvað ætlar þú svo að gera með þessar myndir ?
Ég vann úr myndunum tvö myndbönd, hvort um sig 43 mínutur og 12 sekúndur-Innland og Útland. Í þessum myndböndum eru um 40 000 ljósmyndir, og sýna þau landslagið beggja vegna þjóðvegarins líða hjá með reglulegum árstíðar og birtubreytingum. Þetta er óslitin keyrsla sem spilast undir frumsömdu tónverki Daníels Ágústs Haraldssonar, en hann hafði fylgst með mér og þessu verki frá upphafi. Þessi myndbönd, ásamt miklu úrvali aukaefnis frá sérvöldum stöðum á landinu, slideshow, eldgosakeyrslu og heimildarmynd um gerð verksins, gaf ég út á DVD í sumar og er nú til sölu í helstu bókabúðum ásamt víðar.

Hliðarverk ef svo má kalla, eru þúsundir ljósmynda, þar sem hundruðir staða um landið sýna 2 eða 4 myndir frá þeim sama stað á mismunandi árstíð eða birtu eru stækkaðar og innrammaðar. Ég hélt sýningu á slíkum verkum á Vetrarhátíð á Höfn í apríl, og er mikill áhugi fyrir þeim myndum.

Ertu með heimasíðu þar sem hægt er að sjá afraksturinn ?
Á heimasíðunni- www.inlandoutland.com má sjá úrval mynda úr myndböndunum sem og samsettar myndir frá sömu stöðum.

Er eitthvað nýtt í farvatninu hjá þér ?
Nú þegar hef ég hafist handa við að mynda Snæfellsnesið og hluta af Reykjanesinu með sömu aðferð. Reynslan úr fyrra verki tryggir að nýja verkið verður mun skipulagðara, og styttra á milli mynda, en í fyrra verkinu voru um 3-7 sekúndur milli mynda, en eru nú nær 4 sekúndum að jafnaði. Sömuleiðis verður sérleg áhersla á Snæfellsjökulsþjóðgarðinn, og hefur þjóðgarðurinn komið að verkinu með samgöngum og gistingu.

En sömuleiðis legg ég nú áherslu á að kynna diskinn og þetta efni, ásamt því að sýna verkið. Í apríl sýndi ég á Vetrarhátíð á Höfn, í maí í Winnipeg á listahátíðinni Nunanow, og nú á Menningarnótt sýni ég verkið í Ráðhúsi Reykjavíkur. Á sýningunni er báðum myndböndunum varpað upp á veggi, og tónverkið spilað undir. Hvet alla að koma og upplifa þessa sýn.

Svavar þakkar þeim fyrirtækjum sem studdu verkið, sem og þann fjölda fólks og vina sem lögðu honum lið með stuðningi, gistingu, keyrslum og jákvæðni. Þið vitið hver þið eruð.

 

Hér má sjá myndir sem Svavar tók á ferð sinni um landið, myndir sem teknar voru á ferð eingöngu út um hliðarrúðu.

 

 

 

 

 

 

Íslenska ljósmyndaþjónustan ehf.   Síðumúla 12,   108 Reykjavík   GSM 898 3911   ljosmyndari@ljosmyndari.is   kt. 580108-1560